canEdit = new Array();


miðvikudagur, janúar 10, 2007

Síðbúinn ársannál fyrir árið 2006

Ég hef ákveðið að koma með smá annál þar sem að magnaðasta ár í lífi mínu er liðið. Ég vona bara að þið eigið eftir að njóta.

Janúar



Ég hélt smá kveðjupartý á Pravda þar sem að ég var að halda til Danmerkur og meika það og get ég sagt að mér fannst ég ekki vera merkilegur í því partýi sökum slæmrar mætingar. En ég samt sem áður skemmti mér vel. Of vel eiginlega...

Tveim dögum seinna hélt ég ásamt frábærum ferðafélaga til Danmerkur, nánar tiltekið Krogerupvej 13 í Humlebæk. Við vorum með frekar mikið af farangri og vissum ekkert hvert við vorum að fara né hvað beið okkar á áfangastað. Við náðum þó að enda í Humlebæk og tókum leigubíl á þessa götu sem við gátum ómögulega borið fram.

Leigubílakonan hennti okkur út fyrir framan þessa byggingu inn í miðjum skógi úti í rassgati ef við getum orðað það þannig. Það var alger þögn þarna og enginn sjáanlegur, við vissum ekkert hvert við áttum að fara. Við stóðum þarna fyrir utan í nokkrar mínútur og furðuðum okkur á því hvað við værum búin að koma okkur út í, og þá birtist sami leigubíllinn aftur, með tvær stelpur. Gott að það voru fleiri í sama pakka og við, og viti menn, þær voru íslenskar. Við enduðum þó á því að finna miða sem á stóð símanúmer og ég að sjálfsögðu plataði Lovísu til að hringja, því ekki hafði ég taugar í það að hringja í einhverja Rikke og tala dönsku. En Lovísu tókst það meistaralega vel.

Dagurinn leið og mánuðurinn leið. Við kynntumst nokkrum íslendingum, nánar tiltekið, Berglindi, Jenna, Binna, Björgu, Dísu, Völku, Höllu, Svövu og Kristínu og að sjálfsögðu 80 öðrum dönum sem reyndust misskemmtilegir.

Drykkja, afsleppelsi, feimni og margt annað einkenndi þennan mánuð.

Febrúar

Febrúar gekk í garð í Danaveldi og var lífið farið að ganga sinn vanagang. Ég var farinn að venjast hrotunum í Kasper, búinn að kynnast honum og nokkrum öðrum dönum.


Það var ávallt gaman get ég sagt ykkur. Í febrúar fór ég á Grímuball, Þorrablót í Kaupmannahöfn, og til Svíþjóðar.

Mars

Mars byrjaði á "óvissu"ferð til New York. Ég og Lovísa tókum skyndiákvörðun og fundum ódýra miða til New York og sáum þar tækifæri á að hitta vini okkar sem við söknuðum og sáum okkur fært að hitta og njóta smá tíma með í New York. Við fórum því og báðum Erik Boel skólastjóra um leyfi fyrir smá útlandaferð og að sjálfsögðu fengum við það á sakleysis brosum okkar.


Kuldi og góðir sjokkeraðir vinir biðu okkar í þessari góðu borg. Tíminn fór mest í það að versla, en þar sem ég átti mjög takmarkaðan pening, þá fylgdi ég bara með og tókst okkur að koma Jónu Guðnýju heldur betur á óvart með ansi skemmtilegum hætti inn í miðju H&M.

Það sem gerðist einnig í mars er að við kláruðum fögin okkar í skólanum. Héldum ljósmyndasýningu, fengum múslima í heimsókn sem var heldur betur eftirminnilegt og lærdómsríkt.


Aðalumræðan á þessari viku var "Freedom of speech" og lærðum við margt í sambandi við múslimstrú og fengum þeirra sjónarmið á ýmsum hlutum í lífinu. Og svo í lok mánaðrins fórum við í 10 daga skólaferð til Búdapest.


Í Budapest átti ég mjög góðar stundir og má segja að þar hafi ég kynnst þeim dönum best sem ég er í mestu sambandi við í dag. Ég bakkaði aðeins út úr íslendingahópnum og eyddi mestum tíma með dönum. Við gerðum það mikið í Budapest að ég gæti komið með eina færslu bara um það, en ég er að spá í að sleppa því.

Apríl

Þegar við komum aftur heim til Danmerkur þá var skólanum hjá þeim sem voru bara í 13 vikur lokið. Og að sjálfsögðu kvöddu við þær með rosalegu partý þar sem fólk endaði misilla. Allur hópurinn í skólanum (sem fóru til Budapest) var orðinn mun nánari og þarna voru svona vinatengsl fyrst farin að myndast fyrir alvöru.

Það sem stóð upp úr að mínu mati í apríl var nýji áfanginn í skólanum; Friluftsliv. Þar fórum við í trjáklifur, og fleira útivistartengt.


Svo var að sjálfsögðu brjálað 80's partý í lok mánaðarins og leit fólk mjög fallega út, eða þannig:

Þarna var veðrið farið að vera býsna gott og allir farnir að vörka aðeins tanið. Allir kunnu textann við hið yndislega lag "Dejlig ikke dårlig" og fólki (allavega mér) var farið að kvíða fyrir því að allt þetta gaman færi brátt að taka enda.

Maí

Við byrjuðum fyrsta maí á ferð til Köben þar sem að tónleikar voru í garði og var allt stappað af fólki.

Þarna fórum við líka í mjög svo eftirminnilega útileigu þar sem að við þurftum að útbúa okkar eigin tjöld og get ég fullyrt það að ég hef aldrei á ævinni sofið jafn illa. Enda komst óboðinn gestur í buxurnar á mér og beit mig sem síðan í kjölfarið olli miklum vandræðum vegna blóðeitrunar og ég veit ekki hvað og hvað.

Við fórum í veiðiferð milli Svíþjóðar og Danmerkur, í svokallað gervi brúðkaup, hlupum nakin úti í garði í skólanum, og svo að lokum var því miður kvatt.


Ég fæ aldrei leið á að skoða þessar myndir og ég hefði getað sett svona hundrað myndir með þessari upprifjun, en blogger myndi pottþétt ekki höndla það og varð ég því bara að setja eina og eina. Þessir 5 mánuðir liðu nokkuð hratt, of hratt, og voru þeir eins og ég hef sagt svo oft áður, þeir bestu í lífi mínu.

Ég kom heim og þar biðu mín vinir mínir og þeir nánustu og var það einnig mjög gaman.

Júní

Júní einkenndist af mikilli vinnu vegna þess að allt kostar nú sitt, og svo fékk ég sjúklega mikla Danmerkur"heimþrá". Ég flutti af heiman og byrjaði að leigja á Hofteignum, það var líka góð tilbreyting.

Í lok júní skellti ég mér svo aftur til Danmerkur á Hróarskeldu og átti þar ágætar stundir í Krogerupbúðunum:


Hróarskelda einkenndist af steikjandi hita, heitum bjór, sukki og góðri tónlist.


Júlí

Aftur var komið heim til Íslands og haldið áfram að vinna. Í þessum mánuði var tekin nokkuð stór ákvörðun og var það að flytja til Þýskalands og upplifa eitthvað meira. Kvótinn var ekki búinn.

Í lok júlí fékk ég svo heimsókn frá Danmörku og var farið hringinn í kringum Ísland á 3 dögum og einnig náð þremur tónleikum. Sigur Rós í Öxnadal, Belle and Sebastian á Borgarfirði eystri og svo Sigur Rós á Klambratúni. 1400 kílómetrar að baki á þrem dögum; Met.


Ágúst

Verslunarmannahelginni var að þessu sinni eytt í bænum á innipúkanum. Þar var þriggja daga fjör og meðal annars farið á síðustu tónleika Hjálma (allavega þangað til eitthvað annað gerist)


Einnig var farið í afmæli hjá Lovísu og Jónu Guðný, menningarnótt var ágæt og að lokum kvatt aftur og haldið til Danmerkur og í áframhaldi af því í 7 tíma rútuferðalag til Þýskalands.


September

September ó september. September stendur mjög ofarlega á lista þessa árs.

Hér er myndalinkur frá þeirri helgi, ég gæti hreinlega dælt inn myndum.

  • Blinner
  • Strákarnir komnir aftur á heimaslóðir, ekkert smá gaman að hitta þá og eyða helginni með þeim
  • Hovitzvej
  • Þremenningarsambandið
  • Peter, Bjorn og John
  • Fimleikar
  • Bjór
  • Eldhús
  • Hlátur
  • Grátur (vegna hláturs)
  • Kjólar
  • Vax
  • Sleikur (og nóg af honum)
  • Gill
  • Spoon
  • get ekki hætt að telja upp, en ætla samt að gera það

Ómetanleg helgi, það passar ekki meira inn í september.

Samt sem áður fór ég aftur til Berlínar, og kynntist þar Möggu, það var ekki leiðinlegt. Fékk heimsóknir frá Danmörku, Eva kom frá Íslandi, reyndi að fara að læra þýsku, en mistókst og gerði allt og ekkert.

  • Hot Chip og Lo-Fi-Fnk tónleikar
  • Peter, Bjorn og John tónleikar
  • Tattoo

Október

Október byrjaði á Örnu, Helenu og Sonný sem síðar endaði í Maríjon og hennar föruneyti. Það var einfaldlega ekki hægt að finna neina vinnu því ég var svo mikill host eitthvað. Samt sem áður var þessi tími mjööög góður.

Lok október enduðu svo á Íslandi á Iceland Airwaves sem var einnig með betri vikum þessa árs. Ég dró Jeppe með mér og náði að finna aðeins fyrir þjóðarstoltinu meðan ég rúllaði með hann í gegnum okkar fögru náttúru. Besta Airwaves hingað til. Frábærir vinir og bara rosaleg hamingjuvika eitthvað.


Í lok airwaves þegar aftur til Berlínar var haldið, var tekin ákvörðun um það að nú væri nóg komið af útlöndum í bili og gott væri að fara að huga að einhverju öðru. Nokkrar ástæður voru fyrir því, m.a. innistæðan á bankareikningnum, einveran í Berlín og bara langaði smá að vera á Íslandi.

Nóvember

Vinna, vinna og vinna. Vera með vinum og vinna meira. Ekkert meira um það að segja.

Desember

Fór eiginlega líka bara í vinnu og jólaundirbúning. Einnig varð ég árinu eldri, en það er svo sem ekkert saga til næsta bæjar. Desember endaði svo á ferð til New York, og þá í annað skipti á árinu. Lítið er til af myndum frá þeirri ferð. Ákvörðun var einnig endanlega tekin að næst á dagskrá eru íbúðarkaup og er því mest megnis vinna framundan, bara þetta venjulega íslenska líf.

Þetta ár hefur aldeilis verið viðburðarríkt og langaði mér bara aðeins að gera það upp á þennan hátt. Ef þú kæri lesandi hefur náð þetta langt þá þætti mér vænt um að fá eitt komment eða svo.

Ég vona svo innilega að árið 2007 verði jafn áhugavert og árið 2006 bara á annan hátt þar sem að ég mun ekki eyða eins miklum tíma erlendis.

Takk fyrir mig í bili

Einar



Skrifað klukkan 20:26 |